Nútíminn
Á þeim árum sem liðin eru frá upphafi sjóðsins hefur margt breyst. Atvinnuþátttaka kvenna hefur stóraukist og eru konur um það bil 70% sjóðfélaga. Nafn sjóðsins er nú Lífeyrissjóður bankamanna og með samþykktum sem tóku gildi 1. janúar 1998 skiptist hann í tvær sjálfstæðar deildir Hlutfallsdeild fyrir starfsmenn sem hófu störf fyrir 1. janúar 1998 og Stigadeild fyrir þá sem við breytinguna kusu að færa réttindi sín yfir í Stigadeild. Hlutfallsdeild var þar með lokað fyrir nýjum félögum og allir sem hefja störf eftir 31. desember 1997 eru í Stigadeild. Í janúar 2003 voru greiðendur í sjóðinn samtals 1350 í Stigadeild og 734 í Hlutfallsdeild. Nafni Stigadeildar var svo breytt í janúar 2008 og heitir sú deild nú Aldursdeild. Við breytinguna var horfið frá stigatengingu réttinda, en þess í stað tekin upp aldurstenging.
Sjóðfélagar eru allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins sem náð hafa 16 ára aldri. Í Hlutfallsdeild greiða sjóðfélagar 4% af föstum mánaðarlaunum á móti 14,4% frá launagreiðanda. Enginn greiðir þó lengur en í 40 ár til sjóðsins eða þar til 72,8% réttindahlutfalli er náð. Sjóðfélagi í Hlutfallsdeild getur látið af störfum með rétti til eftirlauna 65 ára gamall. Heimilt er að láta af störfum 60 ára, en þá skerðast eftirlaunin um 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 65 ára aldri sé náð. Í Hlutfallsdeildinni er einnig hægt að nýta sér svokallaða 95 ára reglu, þ.e. að sjóðfélagi sem náð hefur 60 ára aldri og hefur samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár, getur hætt störfum með óskertum rétti til eftirlauna.
Sjóðfélagi í Aldursdeild greiðir 4% af heildarlaunum í iðgjöld á móti 6% frá launagreiðanda til sjóðsins. Vert er að benda á 26. gr. Samþykktanna þar sem segir að þegar greitt hefur verið til sjóðsins í 3 ár í Aldursdeild, skuli launagreiðandi greiða 7% iðgjald af sama grunni til vörsluaðila lífeyrissparnaðar að vali sjóðfélaga. Enginn sjóðfélagi í Aldursdeild greiðir iðgjöld lengur en til 70 ára aldurs. Réttur til eftirlauna miðast við 67 ára aldur. Sá sem er orðinn 65 ára getur hafið töku lífeyris, en upphæðin lækkar þá um 0,6% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 67 árin.