Reglur og samþykktir

Lög og reglugerðir

Lífeyrissjóður bankamanna starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Nánari upplýsingar um þau lög má finna á vef Landssamtaka lífeyrissjóða í hlekknum hér að neðan.

Landssamtök lífeyrissjóða

Samþykktir Lífeyrissjóðs bankamanna

Skoða samþykktir lífeyrissjóðsins

Samskipta- og siðareglur fyrir stjórn og starfsmenn Lífeyrissjóðs bankamanna

 1. Almenn atriði og markmið.

Meginhlutverk Lífeyrissjóðs bankamanna er að taka á móti iðgjöldum, ávaxta þau, tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum og börnum lífeyri og veita sjóðfélögum góða þjónustu. Til að sinna því hlutverki sem best hefur stjórn sjóðsins samþykkt reglur þessar sem gilda fyrir starfsmenn og eftir atvikum stjórnarmenn sjóðsins. Markmið reglnanna er að stuðla að góðum starfsháttum og samskiptum.

Um sjóðinn er víðtækt eftirlit s.s. með innra og ytra eftirliti endurskoðenda, endurskoðunarnefnd og með eftirliti frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Reglum þessum er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir eða breyta gildandi reglum, heldur er þeim ætlað að undirstrika ákveðin grunngildi í starfsháttum stjórnar og starfsmanna sjóðsins.

Stjórn og starfsmenn sjóðsins gera sér ljósa grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir störfum þeirra við varðveislu og ávöxtun fjármuna í eigu sjóðfélaga og leggja áherslu á að fylgja lögum, reglum og góðu viðskiptasiðferði í öllum störfum sínum.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal stjórn lífeyrissjóðsins móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans og ávaxta fé sjóðsins og einstakra deilda hans í samræmi við þær reglur sem mælt er fyrir um í 36. gr. og 36. gr. a laganna. Starfsmenn skuldbinda sig til að hlíta reglum þessum eins og þær eru á hverjum tíma og eru þær hluti af ráðningarsambandi starfsmanna við sjóðinn.

 1. Góðir starfshættir.

Stjórn og starfsmenn skulu leggja rækt við starf sitt og stunda það af kostgæfni. Öll störf og aðrar athafnir skulu miða að því að vera sjóðnum, sjóðfélögum og öðrum sem sjóðurinn veitir þjónustu, til framdráttar.

Sjóðurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að eiga góð samskipti við þá aðila sem hann á samskipti við, hvort sem um er að ræða iðgjaldagreiðendur, sjóðfélaga, þjónustuaðila á fjármálamarkaði eða útgefendur verðbréfa. Sjóðurinn leggur áherslu á að ávöxtun fjármuna sjóðsins taki mið af þeim kjörum sem best bjóðast á hverjum tíma, m.a. næst það með góðum samskiptum við aðila á verðbréfamarkaði. Þau samskipti þurfa að vera í samræmi við almennar grunnreglur er tryggja gott viðskiptasiðferði og hagsmuni sjóðfélaga. Lögð er áhersla á að allar kynningar sem tekið er þátt í og önnur samskipti séu hlutlægar, nákvæmar, sannar og í samræmi við lög og almennt siðferði.

Stjórn og starfsmenn skulu ávallt gæta þess innan sem utan vinnutíma að aðhafast ekkert það sem dregið getur í efa hæfni þeirra til að sinna störfum fyrir sjóðinn eða skaða ímynd hans.

Áreiti í garð samstarfsfólks á vinnustað er ekki liðið. Stjórn og starfsmenn skulu tryggja eftir fremsta megni að starfsemi sjóðsins einkennist af gagnsæi eftir því sem lög leyfa og að upplýsingar þar að lútandi til sjóðfélaga og annarra sem sjóðurinn veitir þjónustu og er í samskiptum við, séu aðgengilegar og skýrar. Lífeyrissjóður bankamanna leggur áherslu á að lögum og reglum sem um starfsemina gilda sé fylgt í hvívetna.

 1. Hagsmunaárekstrar

Stjórnarmönnum og starfsmönnum ber að forðast hvers konar hagsmunaárekstra milli starfa þeirra og annarra athafna eða tengsla við utanaðkomandi aðila. Þeim ber að vera vakandi yfir öllum tengslum sem geta leitt til hagsmunaárekstra og mega ekki taka þátt í meðferð máls ef aðstæður eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Starfsmönnum er skylt að gera framkvæmdastjóra grein fyrir öllum tengslum sem geta leitt til hagsmunaárekstra. Ef vafi leikur á því hvort hagsmunaárekstrar séu fyrir hendi skal bera slíkt undir framkvæmdastjóra.

 1. Meðferð trúnaðarupplýsinga.

Á stjórn og starfsmönnum hvílir þagnarskylda um málefni sjóðsins, s.s. málefni sjóðfélaga, lífeyrisþega og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir lífeyrissjóðinn og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Stjórnarmenn og starfsmenn eru ábyrgir fyrir því að gögn sem þeir taka við og fara skuli leynt komist ekki í hendur annarra. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Stjórn eða starfsmönnum er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar, beint eða óbeint til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfa, sjálfum sér eða öðrum til framdráttar. Að öðru leyti er vísað í stefnu Lífeyrissjóðs bankamanna um meðferð persónuupplýsinga og verklagsreglur um viðskipti starfsmanna og stjórnarmanna með fjármálagerninga.

 1. Samfélagsleg ábyrgð.

Stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna hefur markað þá stefnu að mikilvægi samfélagslegs hlutverks sjóðsins er haft að leiðarljósi í starfsemi hans. Við fjárfestingarákvarðanir er gætt að því að fyrirtæki fylgi viðurkenndum viðmiðum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Stefna sjóðsins um samfélagslega ábyrgð er að öðru leyti mörkuð í stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar.

 1. Starfstengdar ferðir og boðsferðir.

Stjórnarmönnum og starfsmönnum lífeyrissjóðsins er óheimilt að þiggja boðsferðir af innlendum og erlendum þjónustuaðilum eða öðrum viðskiptavinum sjóðsins. Boðsferðir eru til að mynda skemmtiferðir hvers konar, s.s. veiðiferðir, golfferðir og tónleikaferðir. Þrátt fyrir ofangreint er þeim heimilt að sækja viðburði sem skipulagðar eru af þjónustuaðilum, bæði innanlands og utan, s.s. kynningar um fjárfestingar eða fjárfestingarkosti, námskeið, ráðstefnur eða fundi, sem eru til þess fallnir að afla upplýsinga eða þekkingar sem koma að gagni við rekstur sjóðsins. Efni fundanna verður að vera stutt gögnum sem eru til reiðu á fundunum. Skal gögnum haldið til haga í minnst eitt ár. Vettvangur funda á ekki að krefjast ferðalaga umfram það sem nauðsynlegt getur talist. Sjóðurinn skal að jafnaði bera kostnað vegna ferða og gistingar. Bjóði skipuleggjendur upp á útivistar- eða skemmtiatriði svo sem íþrótta- eða menningarviðburði, í tengslum við slíka fundi, skulu þeir viðburðir vera almennt viðeigandi og ganga sem minnst á hefðbundinn vinnutíma.

7. Gjafir.

Stjórn og starfsmönnum er óheimilt að þiggja gjafir, boð eða önnur fríðindi af þjónustuaðilum sjóðsins. Með þjónustuaðilum er átt við alla aðila sem með einhverjum hætti eru í samskiptum eða viðskiptum við sjóðinn. Undanþegnar eru jólagjafir og aðrar tækifærisgjafir sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan marka sem teljast algeng í slíkum tilvikum, eða þegar um er að ræða persónuleg tengsl sem ekki verða rakin til viðskipta við sjóðinn. Einnig boð á menningar- eða íþróttaviðburði á starfssvæði sjóðsins, enda sé gætt hófs í umgjörð og viðurgjörningi. Ennfremur er heimilt að þiggja viðeigandi viðurgjörningi í tengslum við samskipti við þjónustuaðila. Sé starfsmaður í vafa um hvort honum sé heimilt að þiggja gjöf eða boð skal hann leita álits framkvæmdastjóra. Sé framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður í vafa um hvort honum sé heimilt að þiggja gjöf skal hann leita álits formanns stjórnar.

 1. Önnur störf.

Samkvæmt 6. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er framkvæmdastjóra óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn félagsins. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess. Starfsmönnum er óheimilt að gerast umboðsmenn annarra gagnvart lífeyrissjóðnum. Jafnframt mega starfsmenn ekki reka atvinnustarfsemi samhliða störfum sínum fyrir sjóðinn eða taka sér launað starf utan lífeyrissjóðsins, nema með leyfi framkvæmdastjóra sjóðsins. Starfsmönnum er óheimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja eða stofnana nema með leyfi framkvæmdastjóra.
9. Tilkynning brota og viðurlög.
Starfsmenn eða aðrir sem verða varir við brot á reglum þessum, lögum eða öðrum reglum og innri viðmiðum ber að koma slíku á framfæri við framkvæmdastjóra sjóðsins, stjórnarformann eða eftir atvikum við formann endurskoðunarnefndar.
Brot á reglum þessum geta eftir atvikum leitt til áminningar eða uppsagnar.

 1. Gildistaka, samþykki og breytingar.
  Reglur þessar taka gildi við undirritun stjórnar og einungis stjórn getur gert breytingar á þeim.

Samþykkt á fundi stjórnar 16. desember 2022.

Verklagsreglur um hæfi lykilstarfsmanna

Verklagsreglur þessar eru m.a. settar í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2010 og varða hæfi lykilstarfsmanna Lífeyrissjóðs bankamanna.

Lífeyrissjóður bankamanna gerir ríkar kröfur til hæfis og heilinda starfsmanna lífeyrissjóðsins, jafnt sem trúverðugleika og faglegrar hæfni þeirra. Markmið þessara verklagsreglna er að viðhalda trausti sjóðsfélaga og viðskiptaaðila, efla trúverðugleika Lífeyrissjóðs bankamanna og draga úr hugsanlegri rekstrar- og orðsporsáhættu í rekstri lífeyrissjóðsins vegna starfa lykilstarfsmanna.

1. gr. Skilgreining

Lykilstarfsmaður er einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu lífeyrissjóðsins. Stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna metur hvaða starfsmenn lífeyrissjóðsins teljast vera lykilstarfsmenn.

2. gr. Almenn hæfisskilyrði lykilstarfsmanna

Lykilstarfsmaður Lífeyrissjóðs bankamanna þarf að uppfylla eftirfarandi hæfisskilyrði:

 1. vera lögráða,
 2. vera búsettur hér á landi,
 3. má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota,
 4. vera fjárhagslega sjálfstæður,
 5. hafa óflekkað mannorð,
 6. má ekki á síðustu tíu árum í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað   samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
 7. búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt,
 8. starfsferill hans skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
 9. má ekki taka þátt í atvinnurekstri, nema að fengnu leyfi framkvæmdastjóra. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess. Slík þátttaka í atvinnurekstri má þó ekki vera til þess fallin að valda hagsmunaárekstrum eða skaða orðspor lífeyrissjóðsins.
 10. má ekki gegna öðrum launuðum störfum, nema að fengnu leyfi framkvæmdastjóra. Slík störf mega þó ekki vera til þess fallin að valda hagsmunaárekstrum eða skaða orðspor lífeyrissjóðsins.

Lykilstarfsmaður má ekki taka þátt í meðferð máls, eða undirbúningi eða úrlausn þess, ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans eða félag í einkaeigu þar sem hann á hagsmuna að gæta.

Ef lykilstarfsmaður sinnir eignastýringu verðbréfasafna fyrir Lífeyrissjóð bankamanna skal hann vera hæfur til þess á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu og skal hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

3. gr. Framkvæmd hæfismats

Framkvæmdastjóri framkvæmir mat á hæfi þeirra einstaklinga sem teljast til lykilstarfsmanna. Stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna getur ákveðið að fela utanaðkomandi aðila að framkvæma hæfismat.

Við mat á hæfisskilyrðum skal hafa hliðsjón af hugsanlegri rekstrar- og orðsporsáhættu lífeyrissjóðsins vegna starfa viðkomandi lykilstarfsmanns. Mat á hæfi lykilstarfsmanns, sem er í starfi við gildistöku þessara verklagsreglna, skal fara fram innan tveggja mánuða frá gildistöku reglnanna. Meta skal hvort lykilstarfsmaður, sem ætlunin er að ráða til starfa eftir gildistöku þessara verklagsreglna, fullnægi almennum hæfisskilyrðum, sbr. 2. gr., áður en gengið er frá ráðningu hans. Uppfylli lykilstarfsmaður ekki hæfisskilyrðin, eða leiki af öðrum ástæðum vafi á að æskilegt sé að hann gegni lykilstarfi, skal stjórn lífeyrissjóðsins, að fengnu áliti framkvæmdastjóra, meta hvort viðkomandi lykilstarfsmaður eigi að gegna lykilstarfi í þágu lífeyrissjóðsins.

4. gr. Upplýsinga- og tilkynningarskylda lykilstarfsmanns

Lykilstarfsmanni ber að gefa réttar upplýsingar um þau atriði sem kanna þarf við framkvæmd hæfismats. Lykilstarfsmaður skal upplýsa framkvæmdastjóra tafarlaust um hverjar þær breytingar sem verða á högum hans, sem kynnu að leiða til endurskoðunar á hæfismati.

Lykilstarfsmanni er skylt að tilkynna framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins ef sú staða kemur upp að hann fái réttarstöðu grunaðs manns í sakamáli. Fái lykilstarfsmaður slíka stöðu skal stjórn lífeyrissjóðsins, að fengnu áliti framkvæmdastjóra, meta hvort viðkomandi lykilstarfsmaður eigi að víkja tímabundið úr stöðu sinni á meðan rannsókn stendur yfir.

Við mat á hæfi lykilstarfsmanns áskilur Lífeyrissjóður bankamanna sér rétt til að kalla eftir öllum þeim gögnum sem hann telur nauðsynlegt, þ.m.t. sakavottorði. Gæta skal öryggis og trúnaðar við varðveislu slíkra gagna.

5. gr. Upplýsingar um lykilstarfsmenn

Lífeyrissjóður bankamanna mun halda skrá yfir lykilstarfsmenn sína, þar sem fram kemur hverjir teljist til lykilstarfsmanna lífeyrissjóðsins, hvaða stöðu þeir gegna og hvers vegna þeir teljast til lykilstarfsmanna.

6. gr. Viðurlög

Gefi lykilstarfsmaður rangar eða villandi upplýsingar, í tengslum við hæfismat sem gert er á grundvelli þessara verklagsreglna, getur það varðað áminningu eða uppsögn.

7. gr. Birting

Verklagsreglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi 22. júní 2011 og eru birtar á heimasíðu sjóðsins.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

1. Inngangur

Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar setur fram viðmið Lífeyrissjóðs bankamanna í samræmi við 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að lífeyrissjóður skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, mannréttinda, samfélagsmála og stjórnarhátta við fjárfestingarákvarðanir. Lífeyrissjóður bankamanna lætur þessi málefni sig varða og byggja viðhorf sjóðsins á grunngildum íslenska ríkisins, sem meðal annars birtast í ákvæðum stjórnarskrár og almennra laga.

Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar tekur einkum til beinna fjárfestinga sjóðsins í skráðum fyrirtækjum og sjóðum (að undanskildum vísitölusjóðum) sem fjárfesta aðallega í hlutabréfum, s.s. verðbréfasjóðum, fjárfestingarsjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Mögulegt er að líta til grundvallarsjónarmiða stefnunnar við aðrar fjárfestingar eftir því sem við á. Nánar er fjallað um beitingu stefnunnar gagnvart fjárfestingum í gr. 4.

Lífeyrissjóður bankamanna er tiltölulega lítill fjárfestir auk þess sem stærstur hluti fjárfestinga sjóðsins í hlutafélögum er óbeinn í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.  Af þessum sökum hefur sjóðurinn takmarkaða möguleika til þess að beita sér með beinum hætti gagnvart einstökum fyrirtækjum, nema í þeim tilfellum þegar stærð beins eignarhlutar gefur tilefni til þess. Á þetta sérstaklega við um erlendar fjárfestingar þar sem stærð sjóðsins er hlutfallslega mjög lítil og fjárfestingar eru að jafnaði nær alfarið í sjóðum en ekki í einstökum fyrirtækjum.

2. Markmið

Lífeyrissjóður bankamanna hefur það höfuðmarkmið að ávaxta eignir sjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum og hámarka réttindi sjóðfélaga. Skal ávöxtun eigna hagað með þeim hætti að samspil ávöxtunar og áhættu sé sem hagkvæmast samræmi við fjárfestingarstefnu og áhættustefnu sjóðsins á hverjum tíma.

Stefnu þessari um ábyrgar fjárfestingar er ætlað að skilgreina viðmið sem gera lífeyrissjóðnum kleift að samþætta samfélagslega ábyrgð við fjárfestingarákvarðanir hans eftir því sem kostur er og styðja þannig við greiningu, samanburð og mat á fjárfestingakostum. Er í því sambandi horft til umhverfismála, mannréttinda, samfélagsmála og stjórnarhátta og tillit tekið til þessara þátta eftir því sem fært er og að því marki sem rúmast innan fyrrgreinds höfuðmarkmiðs sjóðsins um hámörkun réttinda sjóðfélaga.  Það er mat stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna að samþætting samfélagslegrar ábyrgðar við fjárfestingarákvarðanir leiði jafnan til betri ákvörðunartöku og samrýmist því vel höfuðmarkmiði sjóðsins.

3. Framkvæmd

Framkvæmdastjóri annast framkvæmd stefnu um ábyrgar fjárfestingar í samráði við stjórn og áhættustjóra. Stefnan skal höfð til hliðsjónar við einstakar fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóðsins og eftirfylgni með þeim, ásamt því að vera til hliðsjónar við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu og áhættustefnu sjóðsins.

4. Beiting stefnu við ábyrgar fjárfestinga

Sem fjárfestir mun Lífeyrissjóður bankamanna beita sér eftir því sem kostur er í þeim tilgangi að hafa uppbyggileg áhrif á háttsemi fyrirtækja og stuðla að langtímahagsmunum og sjálfbærni þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í enda telur hann slíkt samrýmast hagsmunum sjóðfélaga. Lífeyrisjóður bankamanna getur ákveðið að styðja aðgerðir annarra fjárfesta þegar atvik koma upp er snúa að þessum sviðum ásamt því að beita sér sjálfur ef eignarhald lífeyrissjóðsins í viðkomandi fyrirtæki gefur tilefni til, með það að markmiði að hafa áhrif á viðhorf og stefnu þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í.

Þegar um er að ræða fjárfestingar í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu hefur Lífeyrissjóður bankamanna væntingar til þess að eignastýringaraðilar sem sjóðurinn er í viðskiptum við beiti sér eftir því sem við á með sambærilegum hætti gagnvart fjárfestingum sínum. Er kannað hvort eignastýringaraðilar sjóða hafi sett sér stefnu varðandi ábyrgar fjárfestingar áður en fjárfest er í viðkomandi sjóðum. Slík stefna er ekki skilyrði fjárfestingar í viðkomandi sjóði og fram fer mat á grundvelli heildarmarkmiða sjóðsins.

Þegar um er að ræða beinar fjárfestingar í félögum er m.a. horft til upplýsingagjafar fyrirtækja varðandi stjórnarhætti og atriði sem að þeim snúa á sviði umhverfismála og samfélagslegra málefna með áherslu á þau svið sem eru viðeigandi viðkomandi rekstri. Er þar einkum horft til upplýsingaskyldu skráðra fyrirtækja sbr. 66. gr. d. í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.

Tengist fyrirtæki broti á sviði umhverfismála og samfélagslegra málefna að áliti lögbærra yfirvalda er það markmið sjóðsins að beita sér sem eigandi þannig að gripið sé til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja að látið sé af viðkomandi háttsemi. Ef slíkar aðgerðir bera ekki fullnægjandi árangur mun sjóðurinn taka til skoðunar sölu viðkomandi eignarhlutar í heild eða að hluta og getur við viðvarandi eða ítrekuð brot útilokað einstakar fjárfestingar þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar.

5. Endurskoðun og birting

Stefna þessi skal birt á heimasíðu sjóðsins og endurskoðuð árlega af stjórn og eftir því sem tilefni er til.

Samþykkt á stjórnarfundi Lífeyrissjóðs bankamanna 28. nóvember 2017.

Verklagsreglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi 22. júní 2011 og eru birtar á heimasíðu sjóðsins.

Áhættustefna

Hér er hægt að nálgast áhættustefnu og áhættistýringarstefnu Lífeyrissjóðs bankamanna

Áhættustefna

Stefna um meðferð persónuupplýsinga

Hér er hægt að nálgast stefnu um meðferð persónuupplýsinga Lífeyrissjóðs bankamanna

Stefna um meðferð persónuupplýsinga

Stefna um útvistun

Hér er hægt að nálgast stefnu um útvistun Lífeyrissjóðs bankamanna

Stefna um útvistun