Saga sjóðsins

Upphafið

Lífeyrissjóður bankamanna er einn elsti lífeyristryggingarsjóður landsmanna. Saga sjóðsins er samofin sögu Landsbanka Íslands, en með frumvarpi til laga um Landsbankann árið 1919 var lagt til að stofnaður yrði sjóður fyrir starfsmenn bankans, sambærilegur við nýstofnaðan Lífeyrissjóð embættismanna ríkisins.

Í lögum um Landsbankann frá 28. nóvember 1919 er fyrst minnst á eftirlaunasjóð fyrir starfsmenn bankans og er hann þar nefndur styrktarsjóður.

Fyrsti fundur

Þótt rekja megi upphaf sjóðsins til ársins 1919 er það þó ekki fyrr en á árinu 1924 sem stofnféð er lagt fram og fyrsti fundur stjórnar Eftirlaunasjóðsins er haldinn 6. júní 1929. Líklegt er að orsök þessara tafa hafi verið sífelld endurskoðun á lögum um Landsbanka Íslands á þessum árum, en lögin gengu loks í gildi 15. apríl 1928. Þá þegar var farið að semja drög að reglugerð fyrir sjóðinn, sem síðan voru send Félagi starfsmanna Landsbanka Íslands til umsagnar í nóvember sama ár. Fjallað var um málið á fundi starfsmannafélagsins 20. nóvember, sem samþykkti drögin með nokkrum breytingum.

Fyrsta reglugerðin

Fyrsta "reglugjörð" sjóðsins var loks staðfest og undirrituð á fundi bankaráðs Landsbankans 14. desember 1929. Eftir þennan langa aðdraganda tók Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands svo formlega til starfa 1. janúar 1929. Í þessari fyrstu reglugerð segir að hlutverk sjóðsins sé að sjá starfsmönnum fyrir eftirlaunum og veita ekkjum þeirra og börnum í ómegð styrk samkvæmt ákveðnum reglum. Þar segir einnig að allir fastir starfsmenn bankans eldri en 25 ára og yngri en 50 ára, að bankastjórunum undanteknum séu sjóðfélagar.

Kynjamunur

Greinarmunur er gerður á konum og körlum í þessari fyrstu reglugerð og segir þar að konum beri að láta af stöðu sinni þegar þær ná 60 ára aldri en körlum 65 ára. Rétt til eftirlauna fékk fólk þegar það hafði greitt til sjóðsins í 10 ár. Starfandi sjóðfélagar voru í janúar 1929 49 karlar (82%) og 11 konur (18%) eða samtals 60 manns.

Breytingar

Árið eftir að fyrsta reglugerðin var samþykkt urðu miklar umræður á fundi F.S.L.Í. um breytingar. Það var þó ekki fyrr en 29 júní 1948, tæpum tuttugu árum síðar, að frumvarp að nýrri reglugerð var lagt fyrir félagsfund FSLÍ. Í millitíðinni höfðu ýmsir komið með ábendingar, greinar höfðu verið skrifaðar, nefndir skipaðar og heitar umræður verið um reglugerðina. Helstu breytingar voru að iðgjöld bankans hækkuðu úr 3% í 7% á móti 3% iðgjaldi starfsmanna. Réttur og skylda kvenna til að láta af störfum var hækkaður til 65 ára aldurs til jafns við karla. Breyting varð á eftirlaunum í hlutfalli við starfstíma og meðallaun síðustu starfsár sjóðfélaga. Hámark eftirlauna varð 65% en var áður 60%. Skýrari ákvæði um öryrkja og örorkustyrki, hækkun á maka og barnalífeyri og dánarbætur voru teknar upp.

Nútíminn

Á þeim árum sem liðin eru frá upphafi sjóðsins hefur margt breyst. Atvinnuþátttaka kvenna hefur stóraukist og eru konur um það bil 70% sjóðfélaga. Nafn sjóðsins er nú Lífeyrissjóður bankamanna og með samþykktum sem tóku gildi 1. janúar 1998 skiptist hann í tvær sjálfstæðar deildir Hlutfallsdeild fyrir starfsmenn sem hófu störf fyrir 1. janúar 1998 og Stigadeild fyrir þá sem við breytinguna kusu að færa réttindi sín yfir í Stigadeild. Hlutfallsdeild var þar með lokað fyrir nýjum félögum og allir sem hefja störf eftir 31. desember 1997 eru í Stigadeild. Í janúar 2003 voru greiðendur í sjóðinn samtals 1350 í Stigadeild og 734 í Hlutfallsdeild. Nafni Stigadeildar var svo breytt í janúar 2008 og heitir sú deild nú Aldursdeild. Við breytinguna var horfið frá stigatengingu réttinda, en þess í stað tekin upp aldurstenging.

Sjóðfélagar eru allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins sem náð hafa 16 ára aldri. Í Hlutfallsdeild greiða sjóðfélagar 4% af föstum mánaðarlaunum á móti 14,4% frá launagreiðanda. Enginn greiðir þó lengur en í 40 ár til sjóðsins eða þar til 72,8% réttindahlutfalli er náð. Sjóðfélagi í Hlutfallsdeild getur látið af störfum með rétti til eftirlauna 65 ára gamall. Heimilt er að láta af störfum 60 ára, en þá skerðast eftirlaunin um 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 65 ára aldri sé náð. Í Hlutfallsdeildinni er einnig hægt að nýta sér svokallaða 95 ára reglu, þ.e. að sjóðfélagi sem náð hefur 60 ára aldri og hefur samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár, getur hætt störfum með óskertum rétti til eftirlauna.

Sjóðfélagi í Aldursdeild greiðir 4% af heildarlaunum í iðgjöld á móti 6% frá launagreiðanda til sjóðsins. Vert er að benda á 26. gr. Samþykktanna þar sem segir að þegar greitt hefur verið til sjóðsins í 3 ár í Aldursdeild, skuli launagreiðandi greiða 7% iðgjald af sama grunni til vörsluaðila lífeyrissparnaðar að vali sjóðfélaga. Enginn sjóðfélagi í Aldursdeild greiðir iðgjöld lengur en til 70 ára aldurs. Réttur til eftirlauna miðast við 67 ára aldur. Sá sem er orðinn 65 ára getur hafið töku lífeyris, en upphæðin lækkar þá um 0,6% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 67 árin.

Aðildarfyrirtæki

Aðildarfyrirtæki Hlutfallsdeildar eru Landsbankinn h.f., Seðlabanki Íslands, Reiknistofa bankanna, Valitor h.f., og Lífeyrissjóður bankamanna.

Aðildarfyrirtæki Aldursdeildar, sem er aðili að samskiptasamkomulagi lífeyrissjóða, eru Landsbankinn h.f., Seðlabanki Íslands, Arion banki h.f., Reiknistofa bankanna, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Valitor h.f. og Lífeyrissjóður bankamanna.

Samþykktir

Segja má að Samþykktir Lífeyrissjóðsins hafi verið í sífelldri endurskoðun frá upphafi. Allar byggja þær þó á þeim grunni sem lagður var með fyrstu reglugerðinni frá 1929. Tillögum um breytingar þurfa að berast stjórn sjóðsins a.m.k. tveimur mánuðum fyrir ársfund og fá sjóðfélagar þær jafnframt sendar. Breytingatillögurnar eru síðan bornar undir atkvæði á ársfundi sjóðfélaga og þurfa samþykki meirihluta hans og staðfestingu meirihluta bankaráða og stjórna aðildarfyrirtækja áður en þær verða að veruleika.

Lán til húsbygginga

Eftir að Landsbankinn hafði lagt fram fé til viðreisnar sjóðnum 1948 hófst nýr kafli í sögu sjóðsins. Ákveðið var að veita Byggingarsamvinnufélagi starfsmanna Landsbanka Íslands, sem stofnað var 22. nóvemer 1949, fé til húsbygginga. Lánstíminn var 35 ár með jöfnum árgreiðslum og vextir 5%. Það var svo á miðju ári 1950 sem Fjárhagsráð, sem hafði með fjárfestingarleyfi að gera á þeim árum, gaf leyfi til byggingar íbúðarhúsa við Melhaga í Reykjavík með samtals átta íbúðum.

Útlánareglur

Hætt er við að útlánareglur sjóðsins eins og þær voru samþykktar 28. ágúst 1950, þættu strangar í dag. Lánin voru t.d. aðeins veitt einstaklingum sem áttu fyrir fjölskyldu að sjá. Aðeins var lánað til kaupa á íbúð af hæfilegri stærð með hliðsjón af þörfum fjölskyldunnar og fjárhagsgetu. Hámark lánsfjárhæðar var 40% af kaupverði og heimilt var að lækka lánsfjárhæðina sem næmi verðmæti umframhúsrýmis, ef húsbyggjandi ætlaði sér of mikið pláss!

Ekki var mikið um lánveitingar á þessum fyrstu árum sem lánað var, en nýjar útlánareglur tóku gildi 1. júlí 1960. Með þessum reglum breyttust lánskjör mjög til hins verra, hvað lánsfjárhæð og vexti snerti, enda var á þessum árum reynt að takmarka fjárfestingu í landinu. Enn á ný voru samþykktar nýjar útlánareglur í nóvember 1963.

Nú er svo komið að útlánareglur sjóðsins eru endurskoðaðar með reglulegu millibili. Miðað er við að veðhlutfall áhvílandi lána fari ekki yfir 65% af verðmati eða kaupverði og 100% af brunabótamati. Lánsumsóknir eru samþykktar af stjórn sjóðsins, sem heldur fundi mánaðarlega. Umsóknir þurfa að hafa borist a.m.k. viku fyrir fund.