Ársuppgjör 2017 - góð markaðsávöxtun
Ársuppgjör Lífeyrissjóðs bankamanna fyrir árið 2017 liggur nú fyrir og gekk rekstur sjóðsins vel á árinu. Hrein nafnávöxtun Hlutfallsdeildar nam 6,40% á árinu 2017 sem samsvarar 4,6% hreinni raunávöxtun samanborið við 3,3% á árinu 2016. Í Aldursdeild nam hrein nafnávöxtun 5,1% sem samsvarar 3,3% hreinni raunávöxtun samanborið við -0,12% á árinu 2016.
Þegar birt ávöxtun lífeyrissjóða er borin saman er mikilvægt að hafa í huga áhrif mismunandi aðferða sem beitt er við mat á skuldabréfum. Lífeyrissjóður bankamanna metur meirihluta skuldabréfa beggja deilda á afskrifuðu kostnaðarverði þar sem tekin tekin hefur verið ákvörðun um að halda bréfunum til gjalddaga. Væru þessi skuldabréf færð til eignar á markaðsverði væri bókfært verð þeirra 4.654 milljónum króna hærra í Hlutfallsdeild og 2.449,2 milljónum króna hærra í Aldursdeild og hrein eign til greiðslu lífeyris hærri sem því nemur. Að sama skapi væri reiknuð raunávöxtun umtalsvert hærri ef skuldabréf væru metin á markaðsverði, eða 8,2% í stað 4,58% í Hlutfallsdeild og 6,2% í stað 3,31% í Aldursdeild. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 4,3% hjá Hlutfallsdeild en 4,2% í Aldursdeild.
Rekstrarkostnaður sjóðsins, þ.e. skrifstofu- og stjórnunarkostnaður, að teknu tilliti til kostnaðarþátttöku aðildarfélaga Hlutfallsdeildar, nam 111 milljónum króna samanborið við 97 milljónir árið áður. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna var 0,15%.
Í árslok greiddu 1.956 sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins, þar af 155 í Hlutfallsdeild og 1.801 í Aldursdeild. Í árslok 2017 greiddu 164 sjóðfélagar iðgjöld í Hlutfallsdeild og 1.861 í Aldursdeild eða alls 2.025. Heildariðgjöld til Hlutfallsdeildar námu 195 milljónum á árinu 2017 samanborið við 201 milljón árið áður. Í Aldursdeild námu heildariðgjöld 1.919 milljónum samanborið við 1.862 milljónir árið áður.
Heildareignir Lífeyrissjóðs bankamanna námu kr. 74.427 milljónum í lok árs 2017 og hækkuðu um 3.408 milljónir á árinu. Í Hlutfallsdeild voru eignir alls kr. 38.608 milljónir eða 52% og í Aldursdeild kr. 35.819 milljónir eða 48%.
Fyrir liggur tryggingafræðileg úttekt miðað við 31. desember 2017 sem sýnir að heildarskuldbindingar Hlutfallsdeildar námu 5,29% umfram heildareignir samanborið við 4,02% árið áður. Hjá Aldursdeild námu heildarskuldbindingar 4,00% umfram heildareignir samanborið við 3,62% árið áður.
Samandregnar upplýsingar um starfsemi sjóðsins má sjá hér.
Ársreikning sjóðsins í heild má sé hér.