Um makalífeyri
Í fyrstu "Reglugjörð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands", sem undirrituð var 14. desember 1928 og tók gildi 1. janúar 1929 var í 10. grein fjallað um Ekkjustyrk. Þá var gengið út frá því að eftirlifandi maki væri kona, því að á þeim tíma störfuðu einungis karlmenn í Landsbankanum.
Eins og allir vita hefur þetta nú breyst og atvinnuþátttaka kvenna er ekki síst í bönkunum, þar sem meirihluti starfsmanna nú eru konur. á þeim árum sem liðið hafa frá stofnun sjóðsins hafa ýmsar breytingar orðið á reglugerð hans. Frá 1. janúar 1998 skiptist Lífeyrissjóður bankamanna í tvær aðskildar deildir, Hlutfallsdeild og Stigadeild, sem breyttist í Aldursdeild í ársbyrjun 2008. Töluverður munur er á greiðslum makalífeyris í þessum deildum. Hér fyrir neðan verður stiklað á stóru í hvorri deild fyrir sig. en nánar má lesa um makalífeyri í Samþykktum sjóðsins, 13. grein fyrir Hlutfallsdeild og 23. grein fyrir Stigadeild/Aldursdeild.
Hlutfallsdeild
Við andlát sjóðfélaga á eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum, ef hinn látni hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 12 mánuði. Fjárhæð makalífeyris fer eftir starfstíma hins látna og nemur 10/17 af áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga.
Til viðbótar fyrrgreindum makalífeyri skal sjóðurinn greiða til eftirlifandi maka eingreiðslu við andlát sjóðfélaga og skal sú greiðsla fylgja sömu reglum og gilda um hóplíftryggingu bankamanna skv. kjarasamningi SÍB og bankanna frá 8. júní 1995.
Aldursdeild
Við andlát sjóðfélaga á eftirlifandi maki rétt á makalífeyri úr sjóðnum, miðað við áunnin stig sjóðfélagans, í 24 mánuði frá andlátinu, ef sjóðfélaginn hefur notið elli- eða örorkulífeyris, eða greitt iðgjald til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undangengnum 36 mánuðum, eða ef sjóðfélaginn hefur öðlast rétt til framreiknings skv. 2. mgr 15. gr. laga nr. 129/1997.
Ef makinn hefur á framfæri sínu eitt barn eða fleiri innan 23 ára aldurs, sem sjóðfélaginn hafði á framfæri sínu, skal makalífeyrir greiddur fram að 23 ára aldri yngst barnsins.
Upphæð óskerts makalífeyris er hundraðshluti af meðaltali grundvallarlauna og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélaganum er reiknaður margfölduðum með 0,9.