22.09.2024

Nýjar samþykktir staðfestar - lækkun réttinda í Aldursdeild

Nýjar samþykktir Lífeyrissjóðs bankamanna voru staðfestar af Fjármála- og efnahagsráðuneytinu 20. september og hafa því tekið gildi.  Um er að ræða eftirtaldar breytingar sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins þann 29. maí sl. og samþykktar hafa verið af aðildarfyrirtækjum í samræmi við 7. grein samþykkta:

1. Lækkun allra áunninna lífeyrisréttinda í Aldurdeild á árinu 2023 og fyrr um 12%.  Öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með 1. október nk.

Réttindabreytingin byggir á minnisblaði frá tryggingafræðingi sjóðsins og er gerð í því skyni að jafna þann mun sem myndast hafði á milli skuldbindinga og eigna Aldursdeildar. Nam hallinn um síðustu áramót 10,4% af heildarskuldbindingum deildarinnar og því utan leyfðra vikmarka 39.gr. laga 129/1997 og sjóðnum því skylt að lögum að bregðast við á þessum tímapunkti.

Halli Aldursdeildar er að stærstum hluta tilkominn vegna óhagstæðra aðstæðna á mörkuðum á árunum 2022 og 2023 sem leiddu til þess að raunávöxtun var undir viðmiði þó ávöxtun Aldursdeildar hafi verið nokkuð umfram meðaltal íslenskra lífeyrissjóða á tímabilinu. Auk þess tilgreindu réttindatöflur sjóðsins um nokkurt skeið hærri lífeyrisréttindi en eðlilegt var fyrir það iðgjald sem greitt var sem leiddi til þess að viðvarandi halli myndaðist á s.k. framtíðarstöðu deildarinnar sem ekki var talið unnt að leiðrétta vegna lagaskilyrða um lágmarkstryggingarvernd. Neikvæð framtíðarstaða var loks leiðrétt með nýjum réttindatöflum sem tóku gildi 2023 en eftir sátu uppsöfnuð áhrif á heildarstöðu deildarinnar. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem áunnin réttindi eru lækkuð í Aldurdeild en slíkt hefur verið gert ítrekað hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum. Réttindi sem áunnin eru eftir árið 2023 haldast óbreytt.

2. Aukinn sveigjanleiki í lífeyristöku. Hægt er að hefja töku eftirlauna við 60 ára aldur m.v. nýjar flýtingartöflur sem staðfestar voru í samþykktum 17. desember 2023.

Breytingin er gerð til í því skyni að auka sveigjanleika í lífeyristöku til samræmis við það sem tíðkast hjá mörgum lífeyrissjóðum og gerir sjóðfélögum kleift að hefja lífeyristöku við 60 ára aldur m.v. nýjar flýtingartöflur sem staðfestar voru í samþykktum 17. desember 2023.

Til baka í fréttir