13.12.2021

Dómsmáli áfrýjað til Landsréttar

Lífeyrissjóður bankamanna hefur áfrýjað til Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sjóðsins gegn aðildarfyrirtækjum og íslenska ríkinu vegna samkomulags um uppgjör ábyrgðar á skuldbindingum Hlutfallsdeildar í aðdraganda hlutafélaga- og einkavæðingar Landsbankans 1998. Að mati sjóðsins er uppgjörið ósanngjarnt, forsendur þess hafa brostið og vegna þessa hafa gagnaðilar auðgast á kostnað sjóðsins og sjóðfélaga.

Að mati lífeyrissjóðsins eru ýmsir ágallar á dómi héraðsdóms, m.a. hvernig dómurinn telur það sanngjarnt að sjóðfélagar Hlutfallsdeildar (þar sem miðgildi lífeyrisgreiðslna er um 180 þúsund kr. (m.v. 30. júní sl.)) þurfi að bera umtalsverða lækkun lífeyrisréttinda (15%) vegna þess að tryggingafræðilegar forsendur samkomulags um uppgjör ábyrgðar lífeyrisskuldbindinga stóðst ekki.

Sérstaklega kemur á óvart að dómurinn tiltekur í forsendum að markaðsverð tiltekinna skuldabréfa í eigu Hlutfallsdeildar sé hærra en bókfært verð og dregur þá röngu ályktun að staða deildarinnar sé því betri en af er látið. Þarna er um grundvallarmisskilning að ræða, enda óumdeilt að bókhaldsleg meðferð verðbréfa hefur engin áhrif á tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða sem málið snýst um. Þetta atriði eitt og sér rýrir verulega gildi dómsins.

Til baka í fréttir