
Útlánareglur
Útlánareglur Lífeyrissjóðs bankamanna.
(samþykktar 29. janúar 2018)
Gildissvið |
1.gr. |
Reglur þessar taka til útlána Lífeyrissjóðs bankamanna til sjóðfélaga. Sjóðurinn veitir sjóðfélögum lán gegn skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign í þeim tilgangi að ávaxta eignir sjóðsins. Sjóðfélagalán eru fasteignaveðlán sem veitt eru á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016. |
Lánsréttur |
2.gr. |
Sjóðfélagar sem greiða iðgjöld til sjóðsins, eiga hjá honum réttindi eða taka lífeyri hjá sjóðnum eiga kost á að sækja um lán hjá sjóðnum allt að kr. 50.000.000.-. Lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000. Við mat á lánsrétti skulu eldri lán dregin frá áunnum lánsrétti. Lán skulu vera verðtryggð að fullu samkvæmt breytingum á vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands auglýsir. Sjóðfélagar geta valið um að greiða lánin með jöfnum afborgunum auk verðtryggingar eða með annuitetsgreiðslum, þ.e. jöfnum greiðslum afborgana og vaxta, auk verðtryggingar. Lánstími sjóðfélagalána er 5 til 40 ár. |
Veðtrygging |
3.gr. |
Lán er einungis veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Íbúðarhúsnæðið skal vera í eigu lántakandans eða maka eða sambúðaraðila. Ekki er tekið veð í íbúðarhúsnæði annarra aðila. Ef eignin er sameign hjóna eða sambúðaraðila skulu báðir aðilar undirrita lánsumsókn og veðskuldabréf sem lántakendur. Leyfð eru önnur lán á undan láni frá sjóðnum, en hvorki fjárnám né lögtök. Lán sjóðsins ásamt öðrum lánum á undan í veðröð, má við lánveitingu ekki fara fram úr 75% af kaupverði eða matsverði sbr. 2. mgr., hvort af þessu er lægra enda sé veðhlutfall ekki hærra en 100% af brunabótamati húsnæðis að viðbættu lóðarmati. Ef veðhlutfall er umfram 65% er almennt gerð krafa um 1. veðrétt. Heimilt er að veita undantekningu frá framangreindri kröfu um 1. veðrétt ef lánsfjárhæð frá öðrum lánveitanda er innan við 10% af verðmæti fasteignar. |
Mat á greiðslugetu og lánshæfi |
4.gr. |
Framkvæma skal mat á greiðslugetu og lánshæfi umsækjanda og maka hans eða sambúðaraðila, ef eignin sem veðsett verður er sameign beggja aðila. Mat má byggja á greiðslumati og lánshæfismati sem framkvæmt er af viðurkenndri fjármálastofnun og í samræmi við lög um neytendalán nr. 33/2013. Fylgigögn, sem liggja til grundvallar greiðslumati, skulu afhent sjóðnum og varðveitt í 5 ár. |
Lánsumsókn og afgreiðslutími |
5.gr. |
Lánsumsókn skal skilað á eyðublaði sem sjóðurinn býður hverju sinni og það undirritað af sjóðfélaga og maka eða sambúðaraðila ef veðið sem á að tryggja lánið er í sameign þeirra. Skal henni skilað til skrifstofu sjóðsins í seinasta lagi einni viku fyrir þann fund stjórnar sem á að fjalla um hana. Stjórn sjóðsins er heimilt að leita staðfestingar á gögnum sem lögð eru fram með umsókn. Mikilvægt er að lánsumsóknir séu skýrar og greinagóðar og veiti fullnægjandi upplýsingar. |
Uppgreiðsla |
6.gr. |
Lántakanda er heimilt að greiða lán sitt upp hvenær sem er á lánstímanum, ef hann óskar þess, án sérstakrar þóknunar. |
Lántökukostnaður og innheimtukostnaður |
7.gr. |
Lántökugjald er föst krónutala samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og er dregið frá andvirði lánsins við útborgun.. Tilkynnt skal um breytingar á lántökugjaldi með 30 daga fyrirvara að jafnaði á heimasíðu sjóðsins sem og með öðrum hætti sem uppfyllir ákvæði 13. gr. laga nr. 33/2013. |
Um ákvörðun vaxta |
8.gr. |
Vextir sjóðfélagalána eru fastir út lánstímann en stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um fasta vexti á hverjum tíma. |
Gildistaka |
9.gr. |
Reglur þessar öðlast þegar gildi. Koma þær í stað útlánareglna frá 30. júní 2017. |
Hlutverk sjóðsins.
Lífeyrissjóður bankamanna hefur það hlutverk að sjá sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum fyrir lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn er sjálfstæð stofnun með eigin stjórn og undir opinberu eftirliti, eins og aðrir lífeyrissjóðir landsins. Deildir sjóðsins eru tvær, Hlutfallsdeild og Aldursdeild. Allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins, sem náð hafa 16 ára aldri, skulu vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins meðan þeir starfa hjá viðkomandi fyrirtæki.
Opnunartími
Opnunartími
Mán - fim: kl. 9:00 - 16:00
Föstudagar: kl. 9:00 - 15:00
Lífeyrissjóður bankamanna
Skipholti 50b, 105 Reykjavík
Skoða á korti >>