Beint á leiðarkerfi vefsins

Fréttir

11. desember 2012

Í tilefni af gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlitsins

Í tilefni af gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlitsins vegna athugunar á stöðu fjárfestinga hinn 31. desember 2011 og ferli fjárfestingarákvarðana Lífeyrissjóðs bankamanna frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2011, vill stjórn sjóðsins koma eftirfarandi á framfæri:

Stjórn og starfsfólk Lífeyrissjóðs bankamanna hafa alla tíð lagt á það mikla áherslu að skipulag á rekstri og stýringu eigna sjóðsins sé í eins traustu formi og kostur er.  Janfnframt er þess þó gætt að umfang rekstrarins sé hóflegt svo ávöxtun fjármuna sjóðfélaga skili sér að eins miklu leyti og unnt er til þeirra sjálfra. Jafnframt hefur eftirlit innri sem ytri endurskoðenda sjóðsins gefið glöggt til kynna á undanförnum árum að skipulag mála sé í eins traustum farvegi og kostur er.  Sterkasti mælikvarðinn á gæði starfs sjóðsins er þó ávallt ávöxtun hans sem hefur verið með ágætum, jafnvel við þær erfiðu aðstæður sem komu upp á árinu 2008.  Meðalraunávöxtun síðustu 10 ára var 3,86% fyrir Aldursdeild sjóðsins og 3,98% fyrir Hlutfallsdeild.

Hvað varðar einstaka liði í gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlitsins vill stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna benda á nokkur atriði.  Sjóðurinn hefur nú þegar svarað Fjármálaeftirlitinu með ýtarlegri greinargerð sem útskýrir alla þá þætti sem gagnsæistilkynningin tekur til.

Fyrst er til að taka að Fjármálaeftirlitið gerir þá athugasemd að formfesta við framkvæmd fjárfestinga sé ekki í nógu góðu formi og að reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar séu ekki fullnægjandi. Engin tilvik er unnt að nefna um að meint formfestuleysi hafi leitt til fjárfestinga sem urðu sjóðnum til tjóns. Það er kjarni máls. Fyrir liggur að engin fjárfesting er gerð nema með vilja og vitund stjórnar. Reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra eru reistar á því viðhorfi að meginreglur (e principle-based) séu skýrar, sem þær eru, og þá fer andi þeirra og tilgangur ekki á milli mála.

Í öðru lagi er gerð athugasemd við að framkvæmdastjóri hafi ekki einn heimilid til fjárfestingar. Það er mat stjórnar að ekkert tilefni hafi gefist til breytinga á reglum sjóðsins. Þrátt fyrir það eru í smíðum reglur um fjárfestingar. Fyrir liggur að skipan mála er sú að fjárfesting sjóðsins í verðbréfum er gerð með þátttöku bæði stjórnar og framkvæmdastjóra. Eitt tilvik má finna í 26 ára stjórnartíð núverandi framkvæmdastjóra, og þá raunar fjárfest í eins traustum verðbréfum  og unnt var. Samþykki stjórnarmanna lá fyrir nokkrum dögum eftir fjárfestinguna en framkvæmdastjóri vissi og mátti vita að hún yrði samþykkt.

Í þriðja lagi er gerð athugasemd við að ekki liggi fyrir reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar. Bent skal á að starfsreglur voru settar fyrir framkvæmdastjóra á árinu 2003 til breytinga á eldra fyrirkomulagi. Í þeim er sérstakur kafli um upplýsingagjöf til stjórnar. Tilvísun í stjórnendaeftirlit í skjali um fjárfestingarferli er því rétt.

Í fjórða lagi er gerð athugasemd við að skjölun verkferils til lánveitinga sé ábótavant.  Hér að framan var að því fundið að framkvæmdastjóri hefði ekki vald til fjárfestingar en nú er fundið að því að lýsing verkferils gefi ekki nægilega í skyn að hann hafi ekki slíkar heimildir nema í samráði við stjórn.  Stjórnin mun breyta skjölun í umbeðna veru.

Í fimmta lagi er gerð athugasemd við að hæfi stjórnarmanna, skýrslugerð til Fjármálaeftirlitsins og viðskipti milli deilda. Því er til að svara að stjórn gerir ekki athugasemd við að heppilegra hefði verið að tiltekinn stjórnarmaður hefði vikið af fundi þegar málefni fyrirtækis sem hann starfaði hjá var tekið til umfjöllunar. Hitt hlýtur þó að skipta meginmáli í þessu sambandi að vera stjórnarmannsins hafði engin áhrif á ákvörðun stjórnar og gekk hún raunar þvert á hagsmuni þess fyrirtækis sem stjórnarmaðurinn starfaði hjá.

Í sjötta lagi er gerð athugasemd við skýrslugerð til Fjármálaeftirlitsins. Ekki var í öllum tilvikum upphaflega fyllt út í rétta reiti á eyðublöðum til eftirlitsins en hins vegar var þar engu leynt og búið að lagfæra einstök álitamál varðandi flokkun að óskum eftirlitsins á hverjum tíma.

Í síðasta lagi er gerð athugasemd við viðskipti milli deilda og að engir pappírar hafi verið að baki þeim. Í því eina afmarkaða tilviki sem um ræðir, liggur fyrir fyrirfram álit lögfræðings sjóðsins að um lögmætan gjörning hafi verið að ræða, sem síðan var tekinn fyrir af stjórn sjóðsins, samþykktur og skilmálar lánsins nákvæmlega skilgreindir í fundargerð. Þar að auki liggja fyrir fylgiskjöl í bókhaldi beggja deilda.

Sjóðurinn mun að sjálfsögðu, hér eftir sem hingað til, kappkosta að fylgja þeim lögum sem um starfsemina gilda í samstarfi við eftirlitsaðila.


Lífeyrismál
Lánareiknivél
Launagreiðendavefur
Sjóðsfélagavefur
Gott að vita

Hlutverk sjóðsins.

Lífeyrissjóður bankamanna hefur það hlutverk að sjá sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum fyrir lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn er sjálfstæð  stofnun með eigin stjórn og undir opinberu eftirliti, eins og aðrir lífeyrissjóðir landsins. Deildir sjóðsins eru tvær, Hlutfallsdeild og Aldursdeild. Allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins, sem náð hafa 16 ára aldri, skulu vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins meðan þeir starfa hjá viðkomandi fyrirtæki.


Opnunartími

Opnunartími 9:15 - 16
Lífeyrissjóður bankamanna
Skipholti 50b
105 Reykjavík
Skoða á korti >>

Toppmynd


Stjórnborð

Texti í sjálfgefinni stærð Texti í miðlungs stærð Texti í stórri stærð Hamur fyrir sjónskerta